Það er enginn sigurvegari í Svarta Sauðnum. Markmið leikmanna er að standa ekki uppi sem Svarti Sauðurinn og færast sem fæsta reiti áfram. Ýmsum spurningum er varpað fram og þurfa leikmenn að kjósa um hvern af meðspilurum sínum þær eiga best við.
Í spilinu er stórglæsilegt spilaborð, 170 spurninga- og atvikaspjöld, 8 peð, 4 blýantar og blöð til að skrifa nöfn á. Einnig fylgir reglublað og á bakhlið þess er textinn „Ég er algjör sauður“ en sá sem tapar þarf að láta taka af sér mynd með því blaði og deila á samfélagsmiðlum.
Tilgangur spilsins
Tilgangur spilsins er að standa ekki uppi sem Svarti Sauðurinn í lok þess. Í þessu spili verður enginn sigurvegari. Sá einstaklingur sem er fremstur þegar spilinu lýkur er Svarti Sauðurinn, sá hefur tapað og er hvattur til að hugsa sinn gang tafarlaust.
Gangur leiksins
- Allir leikmenn byrja á því að skrifa nafn allra meðspilara sinna á blað, eitt nafn á hvert blað, og geyma hjá sér.
- Það eru tvenns konar reitir á spilinu: Spurningareitir og ,wildcard‘ reitir, merktir með Svarta Sauðnum.
- Elsti þátttakandinn í spilinu byrjar á að lesa upp spurningu og gengur svo hringurinn réttsælis. Sé leikmaður á ‚wildcard‘ reit þegar komið er að honum les hann upp af næsta ‚wildcard‘ spjaldi.
- Að loknum upplestri á hverri spurningu skulu allir þátttakendur velja blað með nafni þess meðspilara sem þeim finnst best passa við spurninguna og sýna allir á sama tíma.
ATH: Ekki skal skoða bakhlið spjaldsins fyrr en allir hafa kosið!
- Þegar allir leikmenn hafa kosið skal sá sem las spurninguna upp telja saman atkvæðin. Að því loknu les hann á bakhlið spjaldsins. Á bakhliðinni kemur fram hvort sá sem varð fyrir valinu eigi að fara áfram eða afturábak og þá um hversu marga reiti.
- Á ‚wildcard‘ reitum sem merktir eru með merki Svarta Sauðsins kemur fram á spjaldinu hvað skal gera og ekki þarf að veita atkvæði eða snúa spjaldinu við. Það þarf einfaldlega að lesa það sem stendur á spjaldinu og fara svo eftir því.
- Spilinu lýkur þegar einn þátttakenda hefur komist á endareitinn og er sá hinn sami Svarti Sauðurinn. Þarf hann að láta taka mynd af sér með „Ég er algjör sauður“ blaðinu og deila á sem flestum samfélagsmiðlum.
Hafa skal í huga
– Séu fleiri en einn með jafn mörg atkvæði í hverri umferð fara þeir allir eftir því sem stendur á bakhlið spjaldsins.
– Bannað er að veita sjálfum sér atkvæði.
– Bannað er að sleppa því að veita atkvæði.
– Eigi spurningin ekki við um neinn meðspilara þinna eða þú hreinlega veist ekki við hvern spurningin á best við skaltu einfaldlega giska.
– Bannað er að koma sér saman um að kjósa einhvern meðspilara.